Kjarval
íslenskur texti
Kjarval
English edition
Louisa Matthíasdóttir
Silfur hafsins
Gull Íslands

Síldarsaga Íslendinga
Mikines
Rússnesk-íslensk orðabók
Leiðréttingar og viðaukar við Rússnesk-Íslensk orðabók
Orðabókar-
málfræði
FORSÍÐA
Untitled Document

Silfur hafsins – gull Íslands

Síldarsaga Íslendinga

Sv./hv. prentun, 1.104 bls. þrjú bindi í öskju, A4 brot, innbundin

ISBN 978-9979-9819-0-9


Í fyrsta bindi er fjallað um upphaf síldveiða og verslunar með síld í Evrópu frá því á miðöldum, um síldveiðar Norðmanna við landið á nítjándu öld og aðkomu Íslendinga að síldinni á þeim tíma. Þar er einnig farið yfir helstu síldarstofna heims og útbreiðslu þeirra og loks fjallað um tengsl mannsins og síldarinnar á Íslandi fram undir síðustu aldamót.
    Í öðru bindi er farið yfir síldarútveg á tuttugustu öld, síldarrannsóknir, veiðarfæri og veiðitækni og söltunarstaði á landinu öllu. Á þeirri öld urðu mestu breytingar sem orðið hafa í íslenzkum sjávarútvegi og framfarirnar nánast ótrúlegar. Tækninni fleygði fram og skipin urðu stöðugt stærri, öflugri og öruggari. Í þriðja bindi er sagt frá markaðsmálum og Síldarútvegsnefnd og forverum hennar, greint frá vinnslu síldarinnar, svo sem bræðslu, frystingu og niðurlagningu, og ýmsum þáttum sem henni tengdust. Þar, eins og í veiðunum, urðu breytingarnar örar, en mestu máli skipti að takast skyldi að koma skipulagi á sölumál saltsíldarinnar. Sagt er frá aflaskipum og aflakóngum og skráðir annálar síldarsögunnar. Þar er ennfremur að finna tölfræði, skrár og fleira efni.
    Höfundar eru Benedikt Sigurðsson, Birgir Sigurðsson, Guðni Th. Jóhannesson, Hjörtur Gíslason, Hreinn Ragnarsson, Jakob Jakobsson, Jón Þ. Þór og Steinar J. Lúðvíksson. Ritstjórar eru tveir, Hreinn Ragnarsson og Steinar J. Lúðvíksson. Með skrifum sínum gefa vísinda- og fræðimennirnir verkinu faglegt og sögulegt gildi og aðrir höfundar gæða það lífi og mannlegri vídd.
    Síldin hafði afgerandi áhrif á efnahag Íslendinga á síðustu öld. Fjárlög tóku mið af síldinni, útgerðir og vinnslustöðvar stóðu og féllu í takt við duttlunga síldarinnar og afkoma þúsunda heimila var undir henni komin. Síldin byggði upp heilu þorpin, hún stóð undir stöðugri endurnýjun fiskiskipaflotans og gerði þúsundum ungra manna og kvenna kleift að ganga menntaveginn. Án síldarinnar hefði þróun þjóðfélagsins orðið með allt öðrum hætti. Síldin var Íslendingum uppspretta auðs og velsældar, sannarlega gull Íslands.

 

Efnisyfirlit 1. bindi


 

Efnisyfirlit 2. bindi


 

Efnisyfirlit 3. bindi


HÖFUNDAR

Benedikt Sigurðsson fæddur í Hofteigi á Jökuldal 14. apríl 1918. Kennari á Siglufirði 1944–1982. Fluttist til Akraness 1990. Höfundur bókarinnar Brauðstrits og baráttu, sem kom út í tveim bindum 1989 og 1990, samtals um 900 síður, og fjallar um sögu byggðar og verkalýðssamtaka á Siglufirði frá upphafi til loka síldartímabilsins. Átti hlut að útgáfu Siglufjarðarbókar, hefur birt nokkrar greinar í tímaritum og ritað fjölda blaðagreina. Sat í bæjarstjórn Siglufjarðar í 12 ár og átti hlut að ýmsum félagsmálum þar.

Birgir Sigurðsson fæddur í Reykjavík 28. ágúst 1937. Birgir er eitt þekktasta leikskáld Íslendinga. Leikrit hans hafa verið sýnd hjá Leikfélagi Reykjavíkur og í Þjóðleikhúsinu. Þau hafa einnig verið sýnd á Norðurlöndum og í London og Los Angeles. Leikrit hans, Dagur vonar, var tilnefnt til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Birgir hefur sent frá sér tvær skáldsögur, ljóðabók, smásagnasafn og fræðibækurnar Svartur sjór af síld og Korpúlfsstaðir en upp úr þeim vann hann samnefndar heimildamyndir fyrir Sjónvarpið. Hann hefur einnig fengist við þýðingar.

Guðni Th. Jóhannesson fæddur í Reykjavík 26. júní 1968. Hann lauk stúdentsprófi frá M.R. 1987, B.A. prófi í sagnfræði og stjórnmálafræði frá University of Warwick 1991, M.A. prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1997 og doktorsprófi í sagnfræði frá Queen Mary, University of London 2003. Frá 2003–2007 vann Guðni við sagnfræðirannsóknir og kennslu við Háskóla Íslands. Hann er nú lektor við Háskólann í Reykjavík. Guðni er höfundur fimm bóka um sögu og samtíð og hefur auk þess skrifað fjölda greina í blöð og fræðirit.

Hjörtur Gíslason fæddur á Akureyri 14. desember 1951. Lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri 1973 og kenndi næstu tvö árin við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað. Stundaði nám í íslensku og bókmenntum við Háskóla Íslands á árunum 1975 til 1980. Blaðamaður á Morgunblaðinu frá 1980 og hefur nær allan tímann skrifað um sjávarútveg. Hann hefur skrifað og ritstýrt fimm viðtalsbókum um sjávarútveg og skrifað greinar um sjávarútveg í erlend blöð og tímarit.

Hreinn Ragnarsson fæddur á Skagaströnd 31. desember 1940. Stúdent frá M.A. 1959, kennarapróf K.Í. 1962, B.A. próf H.Í. 1976 (íslenska og sagnfræði), lokaritgerð í sagnfræði: Þættir úr sögu Raufarhafnar. Cand. mag. í sagnfræði H.Í. 1980, lokaritgerð: Þættir úr síldarsögu Íslands 1900–1935. Vann við veiðar, söltun og bræðslu síldar öll sumur 1956–1967. Hefur starfað sem kennari frá 1959, þar af á Laugarvatni frá 1970. Hefur unnið við heimildaöflun og annan undirbúning síldarsöguritunar í hjáverkum síðust tvo til þrjá áratugi. Rit: Nokkrir fyrirlestrar um síld og síldveiðar og greinar í tímarit um sama efni.

Jakob Jakobsson fæddur í Neskaupstað 28. júní 1931. Lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1952 og B.Sc. Hons. prófi í fiskifræði og stærðfræði við háskólann í Glasgow 1956. Hann vann við síldarmerkingar á námsárunum. Ráðinn sérfræðingur við Hafrannsóknastofnun árið 1956 og annaðist aðallega síldarrannsóknir. Varð aðstoðarforstjóri 1975 og forstjóri 1984 til 1998. Prófessor í fiskifræði við H.Í. 1994 til 2001. Tók mikinn þátt í störfum Alþjóðahafrannsóknaráðsins á árunum 1960 til 2001. Varð varaforseti ráðsins 1985 og forseti 1988–1991.

Jón Þ. Þór fæddur í Reykjavík 14. ágúst 1944. Cand. mag. í sagnfræði frá Háskóla Íslands, doktor í hagsögu frá Gautaborgarháskóla og hefur skrifað fjölda rita og greina um sagnfræði. Þeirra á meðal eru Saga Ísafjarðar I.–IV., Breskir togarar og Íslandsmið 1889– 1916, doktorsritgerðin British Trawlers and Iceland 1919– 1976, Landhelgi Íslands 1901–1952 og Ránargull, yfirlit yfir sögu fiskveiða á Íslandi frá öndverðu til okkar daga og Saga sjávarútvegs á Íslandi í þremur bindum. Hefur frá árinu 1985 tekið þátt í fjölmörgum alþjóðlegum ráðstefnum og haldið fyrirlestra við háskóla og rannsóknarstofnanir víða um heim. Jón er forstöðumaður Rannsóknarseturs í sjávarútvegssögu og prófessor við Háskólann á Akureyri.

Steinar J. Lúðvíksson fæddur á Hvammstanga 30. júní 1941. Kennari að menntun. Starfaði um árabil sem blaðamaður á Morgunblaðinu og ritstjóri hjá útgáfufyrirtækinu Frjálsu framtaki/Fróða hf. Hefur ritað um 30 bækur sagnfræðilegs eðlis og ævisögur.

Einari K. Guðfinnssyni sjávarútvegsráðherra afhent fyrsta sett Síldarsögunnar í móttöku, sem ráðherrann bauð til í tilefni af útgáfunni, í Þjóðmenningarhúsinu 26. nóvember 2007. Á myndinni eru einnig Erna Sörensen og Einar Matthíasson úgefendur verksins. (Ljósmynd: Steingrímur Kristinsson).
 

ÚR RITDÓMUM:
Bernharð Haraldsson, Sjómannablaðið Víkingur, 2. tbl. 2008, 70. árgangur (hluti):
“Öll umgjörð verksins er vönduð, ríkulegt myndefni og aragrúi innskotsgreina gefa því góðan svip. Að baki því liggur áratuga vinna, sem ekki verður í tímum talin. Verkið kostar margar krónur út úr búð, en þegar það hefur verið lesið, sést hvað það er í raun ódýrt, því SILFUR HAFSINS – GULL ÍSLANDS er sannarlega þrekvirki.”

Halldór Blöndal, Morgunblaðið, 1. desember 2007 (hluti):.
Síldarsaga Íslendinga er tímamótaverk, öndvegisrit í atvinnusögu okkar Íslendinga. Svo mjög hefur verið til hennar vandað um innihald og frágang allan. Og gleður augað að sjá á öskju og framan á bókunum þekkt listaverk Gunnlaugs Blöndal úr síldinni.
    Síldarsagan er í þremur bindum. Hún er skemmtilega upp sett og prýdd fjölda mynda, sem sýna veiði- og vinnsluaðferðir á mismunandi tímum og er þar sjón sögu ríkari. Og það rifjast upp gömul andlit við að fletta bókunum, sem öll þjóðin þekkti og fylgdist með á síldarárunum.
    Síldarsögunni er skipt upp í 24 kafla, sem lúta að öllum þáttum, er varða síld og síldarútveg. Í ritinu er vönduð heimilda- og nafnaskrá, svo að ritið er aðgengilegt hverjum manni og raunar nauðsynlegt uppflettirit hverjum þeim, sem hefur gaman af sagfræði og atvinnusögu landsins alls eða einstakra héraða. Það er skemmtilegt aflestra og á köflum spennandi fyrir fólk eins og mig, sem komið er á efri ár og man undan og ofan af mörgu því sem hér er frá sagt. Ungu fólki er síldasagan holl lesning. Síldin var slíkur örlagavaldur í sögu lands, þjóðar og einstaklinga að sönn frásögn af henni getur ekki orðið öðru vísi en dramatísk.